Aðstoðarþjónn, þjónn, eða veitingaþjónn

Árið 2004 voru námskrár greinanna inna MATVÍS endurskoðaðar og þá voru búnar til styttri brautir fyrir aðstoðarfólk í greinunum. Í framreiðslu fékk þessi stutta braut nafnið aðstoðarþjónn. Ástæða fyrir þessa stuttu braut í framreiðslu var krafa frá veitingamönnum sem töldu vanta námsframboð fyrir þann fjölda sem ekki væru með sveinspróf í framreiðslu en störfuðu i greininni.

Þann tíma sem stuttu brautirnar hafa verið í boði hefur engin farið í það nám. Það hafa margir sagt það ekki skrítið því það vilja engir mennta sig sem aðstoðarmann. Nú er verið að ræða um hvað eigum við að láta þessa stuttu braut heita?

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur verið að vinna tillögur að stuttum brautum fyrir Starfgreinasambandið og Samband ferðaþjónustunnar. Þær hugmyndir sem síðast sáust voru að útbúa nám fyrir fólk sem starfaði í ferðaþjónustu. Það vantar mikið af fólki með menntu, sérstaklega á landsbyggðinni. Það var hugmynd að starfsfólk gæti tekið námskeið og lokið prófi sem ferðaþjónustumaður með sérhæfingu í veitingasal. Það var gert ráð fyrir að þessir aðilar tækju starfsþjálfun á hóteli úti á landi, en það kom hvergi fram að það þyrftu að vera starfandi fagmenn á viðkomandi hóteli.

Með þessari skoðunarkönnun viljum við leita álits framreiðslumanna á þessu máli. Ef við gerum ekkert er viðbúið að FA setji upp enn styttra nám fyrir starfsmann í sal. Það er nóg fjármagn hjá FA til þess að búa til námsskrá fyrir fólk sem ekki hefur lokið formlegu starfsnámi.
Sennilega á starfsfólk menntamálaráðuneytisins þátt í því að þessar stuttu brautir voru búnar til því þar hafa menn verið mjög uppteknir af því að þrepaskipta náminu. Veitingarmenn hafa ekki verið að senda fólk í nám á styttri brautir þannig að maður skilur ekki alveg hvaða hvatar eru þar að baki.

Þessi braut er til og hefur verið frá 2004 og það var samþykkt á síðasta ári að bjóða þeim sem hafa starfað í 5 ár og eru eldri en 25 ára að fara í raunfærnimat til þess að sjá hvar þau eru stödd og hvað þau þurfa að bæta miklu við til þess að klára styttri brautina.