REGLUGERÐ VINNUDEILUSJÓÐS
Matvæla- og veitingafélags Íslands
1. grein
Sjóðurinn heitir vinnudeilusjóður Matvæla- og veitingafélags Íslands.
2. grein
Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn aðildarfélaga Matvæla- og veitingafélags Íslands í vinnustöðvunum eða verkbönnum eftir því sem hagur sjóðsins leyfir hverju sinni.
3. grein
Stjórn MATVÍS fer með stjórn sjóðsins.
4. grein
Tekjur sjóðsins skulu ákveðnar af stjórn og trúnaðarráði MATVÍS og skulu vera hlutfall af greiddum félagsgjöldum hverju sinni.
5. grein
Nú stendur verkfall lengur en 4 vikur og hagur vinnudeilusjóðs er slæmur eftir lok verkfalls, er þá sjóðsstjórn heimilt að leggja fyrir félagsfund tillögu um sérstakt aukagjald,í ákveðinn tíma sem innheimta skal með félagsgjöldum. Gjald þetta skal renna óskert til vinnudeilusjóðs. Gjald þetta skal aldrei vera hærri upphæð en sem nemur hálfu félagsgjaldi.
6. grein
Allar umsóknir um styrk úr sjóðnum skulu vera á þar til gerðum eyðublöðum er stjórn sjóðsins lætur gera.
7. grein
Félagsmönnum er heimilt að sækja um styrk úr sjóðnum er vinnustöðvun eða verkbann hefur staðið yfir í 14 daga.
8. grein
Stjórn sjóðsins skal halda fund fyrir hvert greiðslutímabil, og ákveða hvenær útborgun skuli fara fram. Þegar stjórn sjóðsins hefur tekið ákvörðun um styrkveitingu, ber að auglýsa það á skrifstofu félagsins með 2ja sólahringa fyrirvara. Útborgun skal standa yfir í tvo daga á þeim tíma sem stjórn sjóðsins ákveður og er þá þeirri úthlutun lokið.
9. grein
Stjórn sjóðsins ákveður upphæð styrkja og tekur þar mið af stærð sjóðsins, ástandi í samningamálum og fjölda umsókna.
10. grein
Þeir sem sinna störfum fyrir félagið í vinnustöðvunum eða verkbönnum skulu ganga fyrir um styrk úr vinnudeilusjóði.
11grein
Sjóðstjórn er heimilt að nota fé úr sjóðnum til reksturs vinnustöðvana, svo sem til verkfalls vörslu.
12. grein
Engar greiðslur er heimilt að greiða úr sjóðnum eftir lausn vinnustöðvana.
13. grein
Rétt til styrks úr sjóðnum hafa þeir einir sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a) Eru fullgildir félagsmenn í MATVÍS og hafa greitt félagsgjald í það minnsta 3 mánuði.
b) Eru ekki í óbættri sök við félagið.
14. grein
Sjóðinn skal ávaxta á sem arðbærastan hátt. Óheimilt er að binda fé sjóðsins á nokkurn hátt.
15. grein
Haldin skal gerðabók yfir styrkveitingar.
16. grein
Ágreiningur vegna meðferðar sjóðsins skal borinn undir lögmætan félagsfund til úrskurðar.
17. grein
Hætti sjóðurinn störfum eða verði lagður niður, ráðstafar aðalfundur eigum hans.
18. grein
Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af skoðunarmönnum félagsins, birtir með ársreikningi síðasta árs og bornir undir næsta aðalfund til samþykktar.
19. grein
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og gilda þar um sömu reglur og um lög MATVÍS.
Reglugerðin þannig samþykkt á stofnþingi Matvæla- og veitingasambands Íslands 12.mars 1996
Þannig samþykkt á ársfundi MATVÍS 17. maí 2006.
Þannig samþykkt á aðalfundi MATVÍS þann 14. apríl 2007.