Bjartsýni og fjölgun starfsfólks

Aldrei hafa fleiri fyrirtæki haft í hyggju að fjölga starfsfólki á næstu þremur mánuðum og nú. Þetta kemur fram í könnun Gallup fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þar var könnuð afstaða fyrirtækja til efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar.

Í könnunn kemur fram að mikil bjartsýni sé ríkjandi á meðal stjórnenda fyrirtækja vegna komandi tíma. Þriðjungur fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki þegar horft sé til næstu þriggja mánaða.

Helmingur fyrirtækja sem fækkað hafa starfsfólki sjá fram á að fjölga því að nýju á næstu mánuðum en fjórðungur þeirra sem ekki hefur þurft að segja upp starfsfólki sökum Covid-19 hyggst fjölga starfsfólki á næstu mánuðum.

Við þetta má bæta að fjölmörg fyrirtæki í matvæla- og veitingarekstri eru að leita að iðnmenntuðu starfsfólki til vinnu í veitingagreinum. Á vefnum alfred.is má til að mynda sjá að 81 starf í veitingageiranum hefur verið auglýst.