Það vor þeir Hallur Guðmundsson rafeindavirki og Lárus Ingi Antonsson frá Rafís sem fóru með sigur af hólmi á golfmóti iðnfélaganna, sem fram fór á Jaðarsvelli á Akureyri á laugardaginn. Þeir léku saman á 14 höggum undir pari vallarins, en leikið var eftir texas-scramble fyrirkomulaginu.
Alls tóku 88 manns þátt í golmótinu en umsjón mótsins var að þessu sinni í höndum FMA og Rafiðnaðarmanna. Nándarverðlaun voru veitt fyrir allar par þrjú holur auk ýmissa annarra gjafa og verðlauna. Góður rómur var gerður að framkvæmd mótsins, að því er fram kemur á vef Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri.
Í öðru sæti urðu Jóhann Rúnar Sigurðsson og Guðrún Sigurðardóttir frá FMA, sem léku á 11 höggum undir pari. Í þriðja sæti urðu okkar menn, Unnar Þór Axelsson og Sigurður Hreinsson frá MATVÍS. Þeir léku á 10 höggum undir pari.
Fjórða sætið hrepptu Gunnar Rafnsson og Arnar Óskarsson, einnig á 10 höggum undir pari en þeir eru frá FMA. Fimmtu urðu þeir Helgi Einarsson og Guðbjörn Ólafsson frá Rafís. Þeir léku á níu höggum undir pari vallarins.