Glæsilegri keppni í framreiðslu lokið í Laugardalshöll

Fimm ungir og glæsilegir fulltrúar framreiðslumanna öttu kappi á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Laugardalshöll daganna 16.-18. mars. Keppendurnir voru Alexander Jósef Alvarado, Benedikt Eysteinn Birnuson, Daníel Árni Sverrisson, Eyþór Dagnýjarson og Finnur Gauti Vilhelmsson.

Keppni í framreiðslu var stýrt af Klúbbi framreiðslumeistara en keppnina hefði ekki verið hægt að halda ef ekki væri fyrir dyggan stuðning fjölmargra styrktaraðila. Markmið keppninnar er að kynna framreiðslu sem faggrein á meðal almennings og að velja fagmann sem fer sem fulltrúi Íslands til keppni á Evrópumóti iðngreina sem fer fram í Gdansk í september á þessu ári.

Keppnin, sem stóð yfir í tvo daga, var að þessu sinni var hnífjöfn og spennandi. Keppendur leystu 16 ólík verkefni sem tengjast framreiðslu. Þar má nefna kokteilgerð, fyrirskurð, hráefnisgreiningu og „fine-dining-servie“. Keppnin var samtvinnuð keppni í matreiðslu; þjónarnir báru fram rétti sem keppendur í matreiðslu elduðu.

Keppandi fæst við kokteila og áfenga drykki.

Svo fór að Finnur Gauti, frá Vox brasserí, bar sigur úr býtum. Hann verður fulltrúi Íslands í framreiðslu á Euroskills í Póllandi í haust, þar sem 32 lönd senda sín færustu ungmenni til þátttöku í 43 iðn- og verkgreinum. Í öðru sæti hafnaði Benedikt Eysteinn Birnuson frá Matarkjallaranum en í þriðja sæti varð Eyþór Dagnýjarson frá Monkeys Restaurant.

Vilja stækka keppnina og fá fleiri þátttakendur

MATVÍS ræddi við Sigurð Borgar Ólafsson, formann Klúbbs framleiðslumeistara og umsjónarmann keppninnar, á föstudeginum, þegar keppnin var í fullum gangi. Hann segir að keppni sem þessi hafi mikla þýðingu fyrir keppendur og sé þeim dýrmætt veganesti til frambúðar. „Í svona keppni ertu að setja sjálfan þig inn í nýjar og krefjandi aðstæður. Hvernig ætlarðu að takast á við það? Sá sem fer í gegn um mót eins og þetta hugsar öðruvísi eftir á og er fær í flestan sjó í kjölfarið,“ segir hann.

Sigurður Borgar var dómari í síðustu keppni sem haldin var en að þessu sinni sá hann um skipulagningu. „Þetta er ofsalega gaman – hér er líf og fjör,“ segir hann en bætir við að markmiðið sé að stækka keppnina fá fleiri keppendur til að skrá þátttöku næst.

Sigurður Borgar er sjálfur framreiðslumaður á Monkeys og keppti fyrir Íslands hönd í Ungverjalandi 2018. „Ég brenn fyrir mitt fag,“ segir hann af sannfæringu og bætir við að honum hafi fundist vanta meiri áhuga á faginu fyrir nokkrum árum síðan. Úr varð að hann endurvakti Klúbb framreiðslumeistara.“

En hvað varð til þess að Sigurður Borgar valdi sér þessa braut í lífinu?

Hann rifjar upp að þegar hann kláraði framhaldsskóla hafi hann ákveðið að sækja um vinnu á Hótel Selfoss, til að ná í sér smá pening. „Ég var búinn að vinna þar í hálft ár þegar matreiðslumaðurinn Hörður Örn Harðarson hnippti í mig og spurði mig hvers vegna ég færi ekki að læra fagið – úr því ég hefði svona gaman að þessu.“

Þetta atvik er honum sérstaklega minnisstætt því þarna heyrði hann í fyrsta sinn að þessu að framreiðslu væri hægt að læra í skóla. „Ég brást við með því að spyrja „Ha! Er hægt að læra þetta?“ rifjar hann upp. „Ég á Herði mikið að þakka. Tveimur mánuðum síðar var ég kominn á samning hjá Hilton. Ég hafði aldrei fengið kynningu á þessu fagi á Selfossi og þar var enginn lærður framreiðslumaður. Ég vildi að ég hefði fengið kynningu þegar ég var yngri, eins og þessa hér,“ útskýrir hann.

Sigurður Borgar vill, fyrir hönd Klúbbs framleiðslumeistara, koma á framfæri þökkum til þeirra fyrirtækja og styrktaraðila sem hjálpuðu til við að afla aðfanga og tækja til að hægt væri að halda keppnina. „Við kunnum mikils að meta alla þá viðleitni sem hvort og eitt ykkar sýndi til að gera okkur þetta kleift,“ segir hann.

Einbeitingin skín úr andliti keppanda.

Fyrirtækin sem lögðu hönd á plóg eru:

 • Grænn markaður
 • Innnes
 • Mekka Wines and spirit
 • Globus
 • Ölgerðin
 • Klakavinnslan
 • Ikea
 • Garri
 • Bananar
 • Mjólkursamsalan
 • Vox Brasserí
 • Monkeys Restaurant
 • A-Smith

Dómarar

 • Andrea Ylfa Guðrúnardóttir
 • Axel Árni Herbertsson
 • Elías Már Hallgrímsson
 • Hilmar Örn Hafsteinsson
 • Katrín Ósk Stefánsdóttir
 • Manuel Schembri
 • Sigurður Borgar Ólafsson
 • Steinar Bjarnarson