Heimabakstur í hagnaðarskyni er ólöglegur, án tilskylinna leyfa, og þeir sem selja bakstur sinn þurfa að uppfylla sömu kröfur og bakararar. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í fyrrakvöld. Þar var fjallað um Söru Bernhardt-smákökurnar, sem njóta mikilla vinsælda fyrir jólin, og svartan markað sem myndast hefur þeirra vegna fyrir jólin.

 

Í frétt RÚV er meðal annars rætt við Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóra hjá Samtökum iðnaðarins og tengilið við Landssamtök bakarameistara. „Lögum samkvæmt er þetta náttúrulega bara kolólöglegt,“ segir hann.

 

Kökurnar eru mjög vinsælar. Um er að ræða stökkar möndlumakkarónur sem síðan eru smurðar með smjörkremi og loks dýpt í hjúpsúkkulaði, að því er fram kemur í fréttinni.

 

Gunnar bendir á að fólk þurfi að hafa tilskilin réttindi til að selja handiðnað og greiða skatta og önnur gjöld. Þá þurfi heilbrigðisyfirvöld að hafa eftirlit með framleiðslunni. Hann segir að fólk megi baka heima hjá sér í góðgerðarskyni eða í fjáröflunarskyni. „En um leið og þú ert farinn að stunda bakstur eða annað slíkt í hagnaðarskyni þá situr þú við sama borð og aðrir og þar af leiðandi við sama borð og bakarinn.“