Mín framtíð, Íslandsmót iðn- og verkgreina verður haldin dagana 31. mars til 2. apríl 2022 í Laugardalshöll. Framhaldsskólakynning verður haldin samhliða í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Fram kemur að á síðasta móti, sem fram fór 2019, hafi verið keppt í 27 greinum auk tveggja sýningargreina. Alls tóku 33 framhaldsskólar þátt og tólf aðrir sýnendur.
Næstu daga verða send út bréf til grunn- og framhaldsskóla með ósk um þátttöku og fagfélögin virkjuð. „Við vonumst eftir skjótum viðbrögðum enda er viðburðurinn mikilvægur iðn -og verkgreinanemum og hans hefur verið beðið með eftirvæntingu,“ segir í frétt á vefnum namogstorf.is.
„Á Íslandsmótinu munu keppendur takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reyna á skipulagshæfileika og fagmennsku. Tilgangur keppna af þessu tagi er að vekja áhuga grunnskólanema og annarra á iðn- og verknámi með því að láta ungt fólk sýna handbrögð og tækni sinnar greinar. Áhorfendur munu einnig fá tækifæri til að snerta á og prófa hluti undir handleiðslu fagmanna í ýmsum greinum,“ segir þar enn fremur.
Gestir verða velkomnir á opnunartíma: Fimmtudag 31. mars og föstudaginn 1. apríl er opið frá 9-17. Laugardaginn 2. apríl er opið frá 10.-16.00.
Nánari upplýsingar veita Inga Birna Antonsdóttir verkefnastjóri, ingabirna@idan.is og Kristjana Guðbrandsdóttir verkefnastjóri, kristjana@idan.is.