Íslensk matarhefð færð til bókar

Þjóðminjasafn Íslands og Bókaútgáfan Sæmundur undirbúa útgáfu á skrifum Hallgerðar Gísladóttur (1952-2007) um íslenska matarhefð. Útgáfan sem unnin er í samvinnu við fjölskyldu og vini höfundar er gerð í tilefni af því að 70 ár eru liðin frá fæðingu Hallgerðar.

Einnig verður efnt til málþings um verk hennar og útgáfunni fagnað. Í hinu nýja riti verður allt það efni sem er í bókinni Íslensk matarhefð frá 1999 auk ítarefnis sem höfundur lét eftir sig. Bókin verður ríkulega myndskreytt.

Í kynningarefni fyrir útgáfuna segir að Hallgerður hafi verið frumkvöðull í fræðilegri umfjöllun um matarmenningu á Íslandi. Öll hennar skrif byggi á viðamiklum rannsóknum og gríðarlegri þekkingu á þessu sviði þjóðhátta.

„Hún var vandaður, virtur og mikilvirkur fræðimaður sem tók þátt í samstarfi bæði innanlands og utan, og hlaut viðurkenningu Hagþenkis og Bókasafnssjóðs höfunda, meðal annars. Greinar eftir hana birtust í erlendum fagtímaritum og innlendum, í blöðum og tímaritum auk þátta um matarmenningu í útvarpi og sjónvarpi, enda var henni umhugað um að koma þekkingunni til skila til almennings.“

Áhugasömum gefst hér kostur á að skrá nafn sitt í minningarskrá sem birtist fremst í bókinni og fá um leið eintak í forsölu fyrir 7.500 krónur.