Leggur til skertan opnunartíma næstu misserin

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði á dögunum minnisblaði til heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn í sóttvarnamálum með tilliti til kórónuveirunnar. Þar leggur hann bæði til takmarkanir á landamærum og innanlands til að sporna við útbreiðslu veirunnar á komandi mánuðum eða misserum.

Í minnisblaðinu er lagt til að veitingastaðir, krár og skemmtistaðir loki klukkan 23:00 öll kvöld vikunnar næstu misseri.

Stjórn Samtaka Fyrirtækja í Veitingarekstri (SVEIT) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þessa. Þar kemur fram að minnisblaðið sé eins og blaut tuska framan í stóran hluta veitingamarkaðarins en geirinn hafi verið meira og minna óstarfhæfur frá því veiran kom til landsins. Fram kemur að þetta muni koma harðast niður á ungu fólki, sem muni missa vinnuna, verði tillögurnar samþykktar. Tíu þúsund manns starfi í greininni.

Í tilkynningunni segir að órökstutt sé hvers vegna svo harðar aðgerðir beinast gegn veitingamarkaðnum þegar fjöldi fólks komi saman í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, á sundstöðum, í líkamsræktarstöðvum, verslunarmiðstöðum og á íþróttaleikjum. Skorað er á sóttvarnalækni að veita haldbær rök fyrir þessum tillögum um skertan opnunartíma veitinga- og skemmtistaða.