Málþing um umhverfisvænni mötuneyti

Í tilefni af nýútgefnum leiðbeiningum fyrir mötuneyti um minni umbúðanotkun og matarsóun boðar Umhverfisstofnun til málþings um umhverfisvænni mötuneyti. Málþinginu verður streymt í gegnum Teams þann 10. maí kl. 14:00 og snertir á fjölmörgum umhverfisþáttum mötuneytisreksturs.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar. Á mælendaskrá eru fyrirlesarar sem koma að rekstri mötuneyta á einn eða annan hátt. Málþingið hentar vel öllum sem koma að rekstri mötuneyta, starfsfólki veitingastaða eða stærri eldhúsa, starfsfólki, hótela, nemendum í matreiðslu og framleiðslu, sveitarfélögum sem reka skólamötuneyti og notendum mötneyta.

Hlekkur á streymi

Dagskrá málþingsins:

14:00 Nýjar leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um minni matarsóun og umbúðanotkun

Kristín Helga Schiöth og Ásdís Nína Magnúsdóttir, sérfræðingar í teymi hringrásarhagkerfis.

14:10-14:20 Heilsusamlegt mataræði hagstætt umhverfinu

Anna Sigríður Ólafsdóttir, doktor í næringarfræði og prófessor við deild Heilsueflingar íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði HÍ.

Anna Sigríður mun fjalla um heilsusamlegt mataræði sem er hagstætt umhverfinu. Sífellt meiri áhersla er lögð á að umhverfissjónarmið og heilsusamlegt fæði fari saman og hvaða skref er æskilegt að taka. Í erindinu verður horft til nýrra niðurstaðna á mataræði Íslendinga, rannsókna á mataræði í skólamötuneytum og farið yfir þróun ráðlegginga sem færast stöðugt meira í átt að umhverfissjónarmiðum, þar á meðal norrænar ráðleggingar, vistkerafæði og vegan valkostir. 

14:20-14:30 Áherslur Matvælaráðuneytisins og stefnumótun um matvælaframleiðslu Íslands

Sigurður Eyþórsson, sérfræðingur við Matvælaráðuneytið.

Sigurður mun m.a. kynna áherslur ráðuneytisins og vinnu við stefnumótun um matvælaframleiðslu. Sú stefna miðast að því að framleiðslan styðji enn frekar við loftslagsmarkmið landsins, sjálfbæra nýtingu á auðlindum til lands og sjávar og dragi úr neikvæðum umhverfisáhrifum, bæði í frumframleiðslu og vinnslu matvæla.

14:30-14:40 Svansvottað mötuneyti – Reynslusaga

Ríkharður Gústavsson, deildarstjóri og yfirmatreiðslumeistari Íslandsbanka og Ásgeir Ólafsson, sérfræðingur rekstrarþjónustu Íslandsbanka.

Ríkaharður og Ásgeir munu fjalla um reynslu sína í því að reka Svansvottað mötuneyti, en mötuneyti Íslandsbanka hlaut Svansvottun í byrjun síðasta árs. Við Svansvottun veitingareksturs er m.a. lögð áhersla á að lágmarka vatnsnotkun og innleiða orkusparandi aðgerðir, litið er til sjálfbærni og kolefnisspors matvæla, gripið er til markvissra aðgerða til að draga úr matarsóun, takmarka umbúðanotkun og einnota vörur og úrgangur er flokkaður. 

14:40-14:50 Umhverfisvænt mötuneyti – Upplifun neytenda

Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir íslenskukennari og meðlimur í Umhverfisnefnd Menntaskólans á Akureyri (MA).

MA tekur þátt í Grænum skrefum í ríkisrekstri þar sem horft er til þeirra neikvæðu umhverfisáhrifa sem rekstur mötuneyta getur haft í för með sér. Ein árangursríkasta leiðin til að draga úr losun tengdri matvælum er að auka hlut matvæla úr plönturíkinu í fæðu okkar. Það hefur mötuneyti MA svo sannarlega gert, en þar er boðið upp á grænmetis eða grænkerafæði alla daga. Kolbrún Ýrr mun ræða hvernig viðtökur hafa verið meðal starfsfólks og reynslu sína sem neytandi í grænmetismiðuðu mötuneyti.

14:50-15:00 Opið fyrir spurningar