Úthlutað var úr Matvælasjóði í fyrsta sinn í dag en sjóðurinn leysir af hólmi Framleiðnisjóð og AVS rannsóknarsjóð í sjávarútvegi. Samtals hlutu 62 verkefni styrki fyrir tæplega 500 milljónir króna. Alls var sótt um styrki fyrir um 2,8 milljarða króna.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði þegar styrkjunum var úthlutað, að framleiðsla matvæla skyldi koma okkur út úr því ástandi sem nú ríkir. Ísland væri matvælaþjóð og hefði lengi verið, bæði til sjós og lands. Það væri hlutverk Matvælasjóðs að ýta undir það markmið.
Eins og áður segir var eftirspurnin mikil. Alls bárust 266 umsóknir í 4 styrkjaflokka Matvælasjóðs.
Þrír 22 milljón króna styrkir voru veittir, en það voru hæstu upphæðirnar sem úthlutað var. Síldarvinnslan á Neskaupsstað fékk slíkan styrk til verkefnisins Prótein úr hliðarstraumum makríls. Matís fékk tvo slíka styrki, annan vegna verkefnisins Streita Laxfiska og hinn vegna verkefnisins Hákarlsverkun í Bjarnarhöfn.
Næsta vor verður 250 milljónum til viðbótar úthlutað úr sjóðnum. Stefnt er að því að opna fyrir umsóknir í mars.