Fréttatilkynning 2012-09-18

Matvæli sem innihalda erfðabreytt efni seldar í verslunum án lögboðinna merkinga

Ný rannsókn sýnir að all margar matvörur sem innihalda erfðabreytt efni eru seldar í verslunum hér á landi án þess að um það sé getið á vörumerkingum.
Frá og með síðustu áramótum tók gildi reglugerð sem kveður á um að merkja skuli matvæli sem innihalda erfðabreytt efni.

Neytendasamtökin, Matvæla- og veitingafélag Íslands og Náttúrulækningafélag Íslands könnuðu nýverið úrval amerískra matvæla í helstu matvöruverslunum höfuðborgarsvæðisins.
Valdar voru 12 vörutegundir sem talið var hugsanlegt að innihaldi erfðabreytt efni.
Til þess að ganga úr skugga um hvort svo væri voru sýni send til greiningar í rannsóknarstofu Genetic-ID í Þýskalandi.

Í ljós kom að níu af þessum 12 vörutegundum reyndust innihalda erfðabreytt efni en ekki er tilgreint um erfðabreytt
innihald þeirra á vörumerkingum þrátt fyrir að það sé skylt.
Þessar níu vörutegundir eru:
Shop Rite Corn Flakes (morgunkorn)
Pop Corners (snakkflögur)
Doritos Cool Ranch Tortilla Chips (snakkflögur)
Maís Hveiti (bökunarmjöl)
EAS Advent (súkkulaðidrykkur ætlaður líkamsræktarfólki)
Mass Muscle Gainer (orkudrykkur ætlaður líkamsræktarfólki)
Zone Perfect (orkubiti)
EAS Advanced Edge (orkubiti)
EAS Lean 15 (orkubiti).

Frá og með 1. janúar 2012 hefur verið skylt að merkja matvæli og fóður sem innihalda erfðabreytt efni.
Almannasamtök hafa fengið vísbendingar um að innflytjendur láti hjá líða að uppfylla þessar skyldur, einkum varðandi vörur frá Norður Ameríku. Bandarísk stjórnvöld krefjast ekki merkinga erfðabreyttra matvæla og því þurfa innflytjendur að láta greina allar matvörur þaðan til þess að ganga úr skugga um hvort þau innihaldi erfðabreytt efni.
Samtök bandarískra matvælavinnslufyrirtækja (GMA) áætla að allt að 80% unninna matvæla innihaldi erfðabreytt efni.
Það þarf ekki að koma á óvart þar sem soja og maís eru notuð í flest unnin matvæli, en um 90% allrar sojauppskeru og 85% maísuppskeru í Bandaríkjunum eru talin vera erfðabreytt.

Innflytjendur bera ábyrgð á því að tilgreina matvæli og fóður sem innihalda erfðabreytt efni svo að söluaðilar geti komið þeim upplýsingum á framfæri í vörumerkingum.
Innflytjendur sem bregðast þessari lagalegu skyldu sinni svipta með því neytendur valfrelsi sínu.
Vaxandi fjöldi neytenda velur matvæli á grundvelli heilbrigðis- og hollustusjónarmiða,
en heilsufarsáhrif erfðabreyttra matvæla verða æ umdeildari eftir því sem óháðum vísindarannsóknum á þessu sviði fleygir fram.

Matvæla- og veitingafélag Íslands
Náttúrulækningafélag Íslands
Neytendasamtökin

 

Tafla:

Niðurstöður greininga á erfðabreyttum efnum í nokkrum matvörum

 Vöruflokkur

Sýni nr.

 Vöruheiti

        Niðurstaða

         greiningar *

 Morgunkorn

V002

 Kelloggs Corn Flakes

0

V001

 Shop Rite Corn Flakes

1

 Skyndifæði

V011

 Doritos Cool Ranch

1

V010

 Pop Corners

1

 Orkufæði fyrir  

 heilsuræktarfólk

V007

 EAS Lean 15, orkubiti

1

V003

 EAS Advent, súkkulaðidrykkur

1

V004

 Mass, Muscle Gainer, duft

1

V006

 Monster Pump, orkubiti

0

V005

 Monster Amino, orkubiti

0

V009

 EAS Advanced Edge, orkubiti

1

V008

 Zone Perfect, orkubiti

1

 Bökunarvara

V012

 Kostur Maís Hveiti

1

*) 0 = Erfðabreytt efni greindust ekki í vörunni. 1 = Erfðabreytt efni greindust í vörunni.

Greiningar fóru fram í rannsóknarstofum Genetic-ID í Þýskalandi í júlí 2012.