Nýr þjálfari Kokkalandsliðsins

Ari Þór Gunnarsson hefur verið valinn nýr þjálfari Kokkalandsliðsins. Honum hefur verið falið það verkefni að fylgja eftir góðum árangri liðsins á síðasta stóramóti, þegar Kokkalandsliðið kom heim með bronsverðlaun frá Ólympíuleikunum í matreiðslu, sem fram fóru í Stuttgart í fyrra.

Í tilkynningu frá Klúbbi matreiðslumeistara, sem á og rekur Kokkalandsliðið, segir að Ari hafi hafið nám í matreiðslu á Sjávarkjallaranum en hafi útskrifast af veitingastaðnum Fiskfélaginu. Hann hafi síðan verið þar yfirkokkur í níu ár. Ari er með sveinsbréf í matreiðslu úr MK frá 2010. Í dag starfar hann sem söluráðgjafi hjá Fastus ehf.

Haft er eftir Ara að hann hafi heillast af handverki frá því hann man eftir sér, því hafi matreiðsla orðið fyrir valinu. Keppnismatreiðsla hafi fylgt honum frá því hann byrjaði að læra. Hann var matreiðslunemi ársins 2008 og 2009.

„ Ef þú vilt ná því best fram í fólki, þá skaltu vinna með því ekki yfir því“ – Ari Þór

Ari er ekki ókunnugur Kokkalandsliðinu því hann hefur verið meðlimur í liðinu sem keppti á Heimsmeistaramótunujm 2014 og 2018. Þá hefur hann verið aðstoðarþjálfari fyrir Norrænu nemakeppnina 2011 og 2012, en aðalþjálfari 2013 og 2014.

„Liðið hefur undanfarin ár æft í húsnæði fagfélagana á Stórhöfða og á Matvís miklar þakkir fyrir að veita þá aðstöðu. Bakhjarlar og styrktaraðilar eiga miklar þakkir fyrir að standa þétt að baki okkar, án þeirra stuðnings væri ekki hægt að halda út starfi Kokkalandsliðsins,“ segir Þórir Erlingsson forseti Klúbbs matreiðslumeistara.

Á næstu vikum hefjast æfingar fyrir næsta mót. Landsliðshópurinn verður tilkynntur í mars.