Nýsköpunarvikan heldur í fyrsta sinn í ár Nýsköpunarsmakk í Iðnó á föstudaginn frá 16:00-18:00. Þar munu frumkvöðlar í mat og drykk bjóða gestum upp á að smakka afurðir sínar.
Frá þessu er greint á vef Veitingageirans. Þar kemur fram að fjölbreytt úrval matvæla verði í boði í Iðnó. Þar má nefna steikt témpeh frá Vegangerðinni, fersk krydd frá Mabrúka beint frá Túnis, rjómalíkjör frá Jökla, drykkir frá Eimverk, Pestó frá Pesto.is, gos frá Könglum, íslenskt kombucha frá Kubalubra, sinnep frá Svövu og stökkan ost frá Lava Cheese.
Fram kemur að um kjörið tækifæri fyrir veitingamenn sé að ræða, að kynnast nýju hráefni sem framleitt er á Íslandi. Vegangerðin hefur séð um skipulagningu smakksins og notið við það aðstoðar Karrot og Samtaka smáframleiðenda.
Á myndinni er Kristján Thors, meðstofnandi Vegangerðarinnar og einn skipuleggjanda. Hann heldur á ferskum témpeh.