Skráðu þig í nám á atvinnuleysisbótum

Atvinnuleitendum býðst nú að stunda nám á framhalds- og háskólastigi á atvinnuleysisbótum í eina önn í vinnumarkaðsúrræðinu, „Nám er tækifæri“. Um þetta kveður reglugerð sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra gaf út nú í haust.

Um er að ræða vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnuleitendur sem hafa verið samfellt í sex mánuði eða lengur á atvinnuleysisskrá og vilja efla sig með þátttöku í námi eða bæta við sig námi. Á vefsíðu úrræðisins kemur fram að um sé að ræða góðan stökkpall fyrir fólk sem vill bæta við sig námi. Úrræðið gerir fólki kleift að halda áfram í námi með námsláni frá Menntasjóði námsmanna.

Á meðal þess náms sem fellur undir úrræðið er nám í framreiðslu við Menntaskólann í Kópavogi. Minna má á að heimsfaraldurinn hefur leikið veitingahúsin grátt. Kortavelta veitingageirans dróst saman um 22 milljarða að raunvirði frá mars til október á þessu ári, samanborið við árið á undan. Þetta hefur haft í för með sér miklar uppsagnir í geiranum.

Reglugerðin veitir ungu fólki, sem hefur af vinnu á veitingahúsum, svo dæmi sé tekið, dauðafæri á því að afla sér menntunar í þeim greinum, á meðan það er á atvinnuleysisbótum. Þess má geta að nám bakara, nám í brauð- og kökugerð og nám í ýmsum greinum matreiðslu fellur líka undir úrræðið. Hérna má sjá hvaða nám fellur undir úrræðið.

Á vefsíðu Vinnumálastofnunar er úrræðið skýrt með ítarlegri hætt og farið yfir hvernig fólk getur nýtt sér það.

Óhætt er að hvetja fólk sem kann að hafa misst vinnuna og þurft að sækja um atvinnuleysisbætur, til að nýta sér þetta úrræði stjórnvalda. Nám veitir einstaklingum fjölbreyttari tækifæri á störfum eða verkefnum, eykur möguleika á betri launum, er til þess fallið að auka atvinnuöryggi og gefur fólki möguleika á að skipta um starfsvettvang.