Skýrsla tilbúin um fæðuöryggi á Íslandi

Innlend matvælaframleiðsla stendur fyrir stórum hluta fæðuframboðs á Íslandi og þá sérstaklega próteini. Þetta kemur fram í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi, sem unnin var af Landbúnaðarháskóla Íslands að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fram kemur að íslensk garðyrkja sér fyrir um 43% af framboði grænmetis, búfjárrækt um 90% af kjöti, 96% af eggjum og 99% af mjólkurvörum. Í niðurstöðum segir að mikilvægt sé að marka stefnu um hvernig tryggja megi fæðuöryggi þjóðarinnar.

„Niðurstöður þessarar skýrslu sýna vel hvað innlend matvælaframleiðsla stendur sterkt og hvað hún er mikilvæg stoð enda stendur hún undir stórum hluta fæðuframboðs á Íslandi. Um leið sýnir skýrslan fram á þau tækifæri sem blasa við til að gera enn betur, m.a. í því að efla framleiðslu á korni og innlendri áburðarframleiðslu,“ er haft eftir Kristjáni á vef Stjórnarráðsins.

· Helstu niðurstöður

  • Innlend matvælaframleiðsla stendur fyrir töluverðum hluta fæðuframboðs á Íslandi og þá sérstaklega próteini.   
  • Framleiðsla hverrar greinar á misstóran hlut í fæðuframboði á Íslandi. Framboð á fiski er langt umfram innlenda eftirspurn en hlutdeild innlendrar framleiðslu er 43% í grænmeti, 90% í kjöti, 96% í eggjum og 99% í mjólkurvörum, en sem dæmi aðeins 1% í korni til manneldis.  
  • Innlend matvælaframleiðsla er mjög háð innflutningi á aðföngum og þá sérstaklega eldsneyti og áburði en einnig fóðri, sáðvöru, tækjum og rekstrarvörum til framleiðslunnar.  
  • Eðli og umfang innflutnings aðfanga er misjafnt eftir greinum og því myndi skortur á aðföngum hafa mismikil áhrif á framleiðsluna. Staða einstakra greina er metin í skýrslunni.  
  • Með viðeigandi ráðstöfunum varðandi birgðahald á aðföngum væri hægt að tryggja meirihluta innlendrar framleiðslu í einhvern tíma, háð framleiðslugreinum.  
  • Það liggja tækifæri í því að efla framleiðslu á korni, bæði sem fóður fyrir búfé og til manneldis, efla útiræktun grænmetis og efla innlenda áburðarframleiðslu með bættri nýtingu hráefna.  
  • Til að tryggja að það land sem hentugast er undir ræktun tapist ekki undir aðra starfsemi þarf að liggja fyrir skýr stefna um landnotkun og flokkun landbúnaðarlands.