Matvælastofnun hefur birt grein á vef sínum þar sem finna má ráðleggingar um það hvernig forðast má matarsýkingar. Stofnunin bendir á að mikið álag sé á eldhúsum landsins við jólaundirbúning og yfir hátíðirnar. Hreinlæti, kæling og rétt hitun matvæla sér afar mikilvæg til að koma í veg fyrir að fólk fái matarborna sjúkdóma.
Fram kemur að sjúkdómsvaldandi bakteríur geti borist inn í eldhúsið með kjöti og jarðvegi sem fylgir grænmeti. Þaðan geti þær borist í önnur matvæli í eldhúsinu eða ísskápnum. Kokkurinn og áhöldin sem hann notar geti einnig borið bakteríur á milli. Stofnunin bendir á að nóróveirur geti dreift sér hratt á jólunum. Mikilvægt sé að einstaklingar með slík einkenni haldi sig frá matargerð en handþvottur minnki líkur á smiti milli aðila eða frá menguðum matvælum.
Hér eru atriði sem Matvælastofnun leggur til að fólk hafi hugfast:
- Hrátt kjöt og safi úr því á ekki að komast í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu
- Þvoum ávexti og grænmeti til að koma í veg fyrir að bakteríur berist í matvæli sem eru tilbúin til neyslu
- Þvoum hendur áður en hafist er handa við matreiðslu og eftir snertingu við hrátt kjöt og óþvegið grænmeti
- Þrífum skurðarbretti og áhöld strax eftir notkun
- Skipuleggjum ísskápinn vel og höldum honum hreinum til að koma í veg fyrir krossmengun
- Skiptum reglulega um borðtuskur, viskastykki og handþurrkur
Nánar má lesa um matarsýkingar á vef Matvælastofnunar.