Þátttökuréttur á Euroskills í húfi

„Hér eru keppendur í matreiðslu að útbúa eftirrétt. Þeir eru búnir að skila af sér forrétti og aðalrétti í dag. Þetta eru sem sagt síðustu skilin.“ Þetta segir Sigurjón Bragi Geirsson, sem sér um keppni í matreiðslu á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöll. Keppnin hófst í dag, fimmtudag, og stendur yfir fram á laugardag.

Á mótinu er keppt í 22 iðn- og verkgreinum en auk þess eru fimmtán greinar til sýnis. Það er því óhætt að segja að mikið sé um dýrðir í Laugardalshöll þessa dagana.

Brosmildur keppandi gefur sér tíma til að líta upp úr matargerðinni.

Sex keppendur taka þátt í keppni í matreiðslu að þessu sinni. Þeir bjóða upp á bleikju og hörpuskel í forrétt, lambahrygg og -skanka í aðalrétt og þurfa svo að búa til eftirrétt sem inniheldur hvítt súkkulaði, mango purré og ólífuolíu í eftirrétt. Þar hafa keppendurnir svolítið frjálsar hendur að öðru leyti.

Ásamt því að sjá um keppnina dæmir Sigurjón eldhúsið (vinnubrögð, tímasetningar, útlit réttanna og hreinlæti) en honum til halds og traust eru tveir smakkdómarar.

Sigurjón hefur orð á því að IKEA hafi styrkt keppnina með myndarlegum hætti hver og einn keppandi hefur lítið eldhús út af fyrir sig. „Það hefði ekki verið hægt án þessa stuðnings.“

Einbeitigin skín úr andlitum keppenda.

Sigurjón segir að skilyrði til þátttöku hafi verið að vera 25 ára eða yngri. Sumir keppendurnir eru lærðir en aðrir eru nemar. Sigurvegari keppninnar fer fyrir Íslands hönd á Euroskills sem haldið verður í Gdansk í Póllandi í haust og keppir þar í matreiðslu við fulltrúa fjölda annarra þjóða.

Í Laugardalshöll er einnig keppt í framreiðslu, bakaraiðn og kjötiðn en fjallað verður um þær keppnir á næstu dögum hér á vefnum.

Keppandi önnum kafinn við eftirréttinn.

Opnunartíma og dagskrá í Laugardalshöll má sjá hér.