Tugmilljarða sparnaður á hverju ári vegna VIRK

Samtals hafa 11.710 einstaklingar útskrifast frá VIRK Starfsendurhæfingasjóði frá því sjóðurinn var stofnaður á grundvelli samkomulags ASÍ og SA árið 2008. Árið sem nú er liðið reyndist enn eitt metárið í sögu sjóðsins. 2.330 einstaklingar hófu starfsendurhæfingu á árinu 2020, 11,4% fleiri en árið á undan.

Þetta kemur fram á vef VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Um áramótin voru 2.611 einstaklingar í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK. Það eru um það bil jafn margir og áramótin á undan.

Á vefnum er bent á að ríflega þrír fjórðu hlutar þeirra einstaklinga eru virkir á vinnumarkaði við útskrift, eru með vinnugetu og fara annað hvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám. Fjöldi þeirra sem útskrifaðist árið 2020 var 1.595, eða 11,7% fleiri en árið á undan.

Mikill samfélagslegur og fjárhagslegur árangur er af starfsemi VIRK. Könnun sem VIRK lét gera sýnir að ávinningurinn 2019 nam 20,5 milljörðum króna. Meðalsparnaður samfélagsins á hvern útskrifaðan einstakling nam 14,4 milljónum það ár.

Á myndinni er Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK.