Tuttugu og tveggja milljarða samdráttur

Kortavelta veitingageirans dróst saman um 22 milljarða að raunvirði frá mars til október á milli ára, þar af um nær 19 milljarða frá erlendum ferðamönnum. Þetta kemur fram í greiningu Samtaka atvinnulífsins, sem Fréttablaðið greinir frá í dag.

 

Heimsfaraldurinn hefur leikið veitingageirann grátt. Þannig dróst erlend kortavelta í veitingum saman um 82% á umræddu tímabili. Innlend kortavelta dróst saman um níu prósent.

 

Fram kemur að þúsundir starfa hafi glatast í veitingageiranum þrátt fyrir ýmis úrræði stjórnvalda til að bregðast við ástandinu.

 

Haft er eftir Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, að þriðjungur tekna veitingageirans hafi undanfarin ár komið frá erlendum ferðamönnum.

 

Anna bendir á að veitingamenn hafi í ofanálag þurft að glíma við mikinn ófyrirsjáanleika. Ítrekað hafi verið gerðar breytingar á fyrirkomulagi sóttvarna með skömmum fyrirvara. „Það hefur því reynst erfitt að halda utan um bókanir, aðfangakaup og starfsmannahald með þá óvissu sem er uppi um aðgerðir hverju sinni. Þetta kemur auðvitað niður á rekstrinum.“