Tveir veitingastaðir grunaðir um launaþjófnað

Eftirlitsmenn Fagfélaganna hafa tilkynnt tvo veitingastaði í Reykjavík til lögreglu vegna stórfellds launaþjófnaðar. Fagfélögin sendu fjölmiðlum tilkynningu þess efnis í vikunni.

Á RÚV er haft er eftir Benóný Harðarsyni, forstöðumanns kjaradeildar Fagfélaganna, að farið hafi verið á veitingastaðina tvo eftir ábendingu um mögulegt misferli. „Þá kom það í ljós að greinilega væri verið að brjóta á réttindum fólks,“ segir hann.

Fram kemur á mbl í umfjöllun um málið að fjór­ir starfs­menn hafi verið á umræddum veitingastöðum, sem séu í eigu sömu aðila. Þrír þeirra hafi þegið aðstoð við að kom­ast úr aðstæðum og þegið að flytj­ast í íbúð á veg­um Fag­fé­lag­anna. Starfs­menn­irn­ir hafi áður verið í íbúð á veg­um vinnu­veit­enda.

„Við erum ekki hundrað prósent viss en við teljum að þau hafi bara algjörlega haldið staðnum uppi, vinnulega séð. Þannig að þetta voru raunverulega allir starfsmenn veitingastaðarins. Þau hafa unnið sex daga vikunnar, tíu til sextán tíma á dag, það var lokað sjöunda daginn þannig að við teljum að þetta séu allir starfsmennirnir“, er haft eftir Benóný í frétt á vef RÚV. 

Kjaradeild Fagfélaganna hyggst gera launakröfur á hendur fyrirtækjunum fyrir hönd starfsmannanna og vera þeim innan handar við að finna ný störf og nýtt heimili.