Það er vont þegar embættismenn og þingmenn eru að flýta sér um of í lagasetningum eins og gert var þegar lög um útlendinga nr. 80/2016 voru samþykkt. Þar var verið að endurskrifa lög um útlendinga og vegna mistaka ( skyldi maður ætla ) fór orðið iðnám út eins og sést hér að neðan.

 

 Brottfelld lög frá 1.jan 2017

2.mgr. 12. gr. e. laga nr. 96/2002 orðaðist svo:

Fullt nám telst vera 100% samfellt nám á háskólastigi, iðnnám eða það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms. 

 

Núgildandi lög frá 1.jan 2017:

15.tl. 1.mgr. 3.gr. laga nr. 80/2016 orðast svo:

Nám: Samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

 

Þegar greinargerð með frumvarpinu var lögð fram var hvergi minnst á að orðið “iðnnám”  ætti  að fara út úr lögunum þannig að umsagnaraðilar áttuðu sig ekki á því og gerðu þar af leiðandi engar athugasemdir við þennan lið 3. greinar í sínum umsögnum.

Voru þetta mistök hjá höfundum þessa frumvarps eða eru þar embættismenn að verki sem bera litla virðingu fyrir iðnnámi eða lýta það hornauga sem óæðra nám en Háskólanám?

Útlendingastofnun var fljót að átta sig á þessari breytingu og ákvað að framlengja ekki námsmanna dvalarleyfi matreiðslunema sem er félagsmaður hjá MATVÍS og ákvað að vísa nemanum úr landi. Það læðist að manni sá grunar að þar á bæ hafi menn vitað að iðnnám ætti að fara út úr nýju lögunum.

Málið var kært til Úrskurðarnefndar sem komst að sömu niðurstöðu og útlendingastofnun. Það vekur furðu hvað þessir aðilar eru fljótir að taka ákvarðanir í þessu máli eins og manni finnst þeir annars vera seinir í sínum ákvarðanatökum.

Það að láta einstakling hafa yfir sér að vera sendur úr landi í lögreglufylgd ef viðkomandi er ekki farinn af landi brott innan 15 daga eftir að úrskurður úrskurðarnefndar liggur fyrir er mjög svo ómanneskjulegt. En lög eru lög.

Dómsmálaráðherra hefur boða að hún muni leggja fram nýtt frumvarp á þingi um leið og nýtt þing kemur saman. Samkvæmt þeim viðbrögðum sem þetta mál hefur fengið hjá þingmönnum þá er ólíklegt annað en að þetta frumvarp fái gott brautargengi. Spurningin er hvort það verði nógu tímalega svo þessum nema verði ekki vísað úr landi. Vonandi verður það svo  og viðkomandi fái að ljúka sínu námi hér á landi og þjóni ferðamönnum sem hingað koma eins og aðrir félagsmenn MATVÍS.

 

Níels Sigurður Olgeirsson, formaður MATVÍS