Félag fyrirtækja á veitingamarkaði kallar eftir harðari aðgerðum á landamærunum, til að koma í veg fyrir að kórónuveirusmit berist til landsins frá útlöndum. Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sagði Hrefna Björk Sverrisdóttir, stjórnarkona í félaginu, að harðar sóttvarnir innanlands bitni mjög harkalega á veitingageiranum. Því ætti að herða eftirlit á landamærunum.
Hún sagði í viðtalinu að félagið hefði ekki tillögur um hvernig standa ætti að hertara eftirliti – það væri stjórnvalda að útfæra. Hún benti á að ítrekað væri verið að hafa afskipti af fólki utan sóttkvíar, sem ætti að vera í sóttkví. Aukinn kraft ætti að setja í eftirlit, núna þegar bólusetningar væru komnar á skrið. Tiltölulega stutt væri til lands. „Það eru minni hagsmunir fyrir meiri að halda þessu opnu. Það er stutt í endalokin á þessu miðað við bóluefnaáætlanir,“ sagði Hrefna.