Víðir: Allir skulu vera komnir út klukkan tíu

Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, seg­ir skýrt að veit­ingastaðir eigi að loka dyr­um sín­um klukk­an tíu og fólk eigi að vera farið út á þeim tíma. Hann vísar því á bug að lögreglan hafi haft í hótunum í garð eigenda veitingahúsa.

Þetta kemur fram í frétt á mbl.is en fjölmiðillinn fjallaði fyrr í vikunni um að óánægju gætti meðal rekstraraðila veitingastaða í miðborginni vegna mismunandi skilnings á því hve lengi staðirnir mættu hafa opið. Lögregla segir að allir eigi að vera farnir út klukkan 22 en í fréttinni segir að einhverjir veitingahúsaeigendur séu þeirrar skoðunar að fólk hafi klukkustund eftir klukkan tíu til að ljúka við veitingar og yfirgefa staðinn.

Víðir segir að lögreglan fari eftir reglugerð sem heilbrigðisráðherra gefi út. „Túlk­un heil­brigðisráðuneyt­is­ins var mjög skýr, að með þessu ætti staður­inn að tæm­ast á þeim tíma sem til­greind­ur er í reglu­gerðinni sem er tíu núna. Veit­ingastaðir sem eru með heimsend­ingaþjón­ustu mega af­greiða út um hurðina til ell­efu,“ er haft eftir Víði.