Frumvörp um tekjufalls- og lokunarstyrki hafa verið afgreidd úr efnahags- og viðskiptanefnd. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi fyrir helgi að grípa til frekari efnahagsaðgerða vegna faraldursins. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fyrir nefndina að breyta tekjufallsstyrkjum þannig að úrræðið myndi ná til fleiri aðila og gilda í lengri tíma.

 

Óla Björn Kárason, formaður nefndarinnar, sagði í fjölmiðlum að úrræðið miðaðist nú ekki eingöngu við einyrkja eða örfyrirtæki með þrjá starfsmenn, heldur öll fyrirtæki sem orðið hafa fyrir ákveðnu tekjufalli.

 

Í umsögn Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SFV), frá 25. október, er lagt til að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir 30% tekjusamdrætti eða meira geti sótt um 60% af lokunarstyrk og þeir sem hafi orðið fyrir 75% tekjusamdrætti eða meira geti sótt um fullan styrk.

 

Óli Björn sagði í fréttum Stöðvar 2 að breytingarnar sem gerðar hafi verið hafi komið til móts við þær athugasemdir sem bárust. Þær ættu til dæmis að grípa veitingahús sem orðið hafi fyrir miklum tekjusamdrætti. Aðspurður hvort til greina hafi komið að lækka viðmiðið sagði Óli Björn að það hafi verið lækkað úr 50% og niður í 40%. „Þannig það var gefið hressilega í og komið til móts við athugasemdir.“

 

Hann gerir ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum fyrir lok vikunnar.