Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði skora á stjórnvöld að lækka þak á viðspyrnustyrki um helming. Þau leggja til að fyrirtæki sem hafa orðið fyrir 30% tekjusamdrætti vegna heimsfaraldursins geti sótt um viðspyrnustyrk í staðinn fyrir 60%, eins og nú sé gert ráð fyrir.
Sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda hafa komið afar illa niður á veitingastöðum og hefur rekstrargrundvelli nánast verið kippt undan þeim með fjöldatakmörkunum sem hafa varað meirihluta ársins 2020. Bent er á að veitingastaðir á Íslandi séu reknir með afar lágri framlegð sökum hás verðs aðfanga og launakostnaðar. Lítið megi bregða út af svo illa fari. Í Svíþjóð og Danmörk sé viðmiðið 30% tekjusamdráttur.
„Slíkt tekjufall eitt og sér er erfitt að takast á við í veitingarekstri en 60% tekjufall er ómögulegt með öllu. Svo hátt „inntökugjald“ mun valda því að stuðningurinn mun gagnast fáum og þannig ekki koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og atvinnumissi innan greinarinnar. Þannig er hætt við að það verði fáir eftir til að veita viðspyrnu líkt og styrknum er ætlað að gera.“ segir í umsögn samtakanna við frumvarpið.
Samtökin hvetja efnahags- og viðskiptanefnd til að taka tillöguna til skoðunar svo styrkurinn veiti raunverulega viðspyrnu til handa fyrirtækjum.