„Launafólk á Íslandi er orðið langeygt eftir lagasetningu um févíti,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ í pistli á vef félagsins. Hún segir að grunnhugmyndin sé að þegar launafólk verði fyrir launaþjófnaði af hendi atvinnurekenda fái það bætur fyrir án þess að langur tími líði. Kerfið þurfi að vera hratt og skilvirkt, enda geti mikill kostnaður fylgt því að verða fyrir launaþjófnaði.
Skemmst er að minnast þess að í skýrslu hagdeildar Alþýðusambands Íslands, sem kom út í fyrra, kemur fram að um helmingur alla krafna vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota komi úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu. „Staðreyndin er sú að stéttarfélög fá nú fleiri mál inn á borð til sín tengd brotastarfsemi og að stórum hluta berast þau úr ferðaþjónustu, hótel- og veitingageiranum,“ segir í skýrslunni.
Drífa segir að það geti verið flókið og dýrt að sækja vangoldin laun. Hún gefur í skyn að ef lögin flæki málin þurfi að endurskoða þau. „Löggjöfin á að þjóna okkur en ekki við henni. Ef við getum verið sammála um grunnhugsunina, sem erfitt er að sjá að heiðarlegt fólk geti verið ósammála, þá ættum við að geta smíðað löggjöf í kringum það.“
Hún segir að ASÍ hafi í hálft annað ár beðið eftir tillögum úr ráðuneytinu en að verkalýðshreyfingin hafi sjálf lagt til útfærslu. „Komum þessu frá þannig að hægt sé að einbeita sér að öðrum risa verkefnum. Þar ber hæst að verja heimili sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna Covid og aðstoða jaðarsetta hópa sérstaklega.“